James Gorman, bankastjóri bandaríska bankans Morgan Stanley, vísar allri gagnrýni á vinnu bankans við hlutafjárútboð og undirbúning skráningar Facebook á markað á bug og segir samstarfsmenn sína geta verið stolta af vinnu sinni. Gorman var í viðtali við CNBC-sjónvarpsstöðina í morgun.

Fjárfestar eru áreiðanlega ekki sama sinnis en gengi hlutabréfa Facebook hefur hrunið síðan bréf félagsins voru tekin til viðskipta vestanhafs fyrir að verða hálfum mánuði. Það skall niður í 27,86 dali á hlut í gær og hafði þá aldrei verið lægra.

Ljóst er því að þær gríðarlegu væntingar sem fjárfestar báru til Facebook í aðdraganda skráningar og samanburðurinn við Google er fyrir löngu horfinn út í veður í vind - í það minnsta eins og staðan er í dag.

Allt fer þetta þó eftir því hvernig á málið er litið. Ef miðað er við útboðsgengið 32 dali á hlut degi fyrir fyrsta viðskiptadaginn hefur gengið lækkað um 12%. Ef hins vegar er miðað við verðið þegar það stóð sem hæst á fyrsta degi, 45 dali á hlut, hefur gengið hrunið um rétt rúm 38%. Þetta merkir jafnframt að gífurleg pappírsverðmæti hafa gufað upp. Facebook var metið á 104 milljarða dala degi fyrir skráningu á markað. Það er nú rétt yfir 60 milljörðunum.

Hópur fjárfesta hefur gefið það út að þær ætli í mál við bæði stjórnendur Facebook og þá banka sem stóðu að undirbúningi skráningar félagsins á markað. Þeir telja sig hafa verið blekkta og þá sem áttu að veita þeim upplýsingar um stöðu Facebook ekki greint frá væntanlegum tekjusamdrætti fyrirtækisins.