*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 19. desember 2013 11:55

Forstjóri N1 keypti bréf fyrir 5 milljónir

Þrír af stjórnendum N1 keyptu bréf í félaginu fyrir fjórar til tíu milljónir króna. Bréfin voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni í dag.

Guðni Rúnar Gíslason
Eggert Benedikt, forstjóri N1.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Eggert Þór Kristófersson, fjármálastjóri N1, keypti hlutabréf í fyrirtækinu að andvirði tíu milljóna króna í hlutafjárútboðinu sem tilkynnt var um í síðustu viku. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, keypti helmingi færri bréf en nafni hans eða að andvirði um fimm milljóna króna. Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, keypti svo bréf fyrir um fjórar milljónir króna.

Í kjölfarið á því að tilkynnt var um niðurstöður útboðsins var tilkynnt um þátttöku fruminnherja og aðila sem eru þeim fjárhagslega tengdir. Þessir fjórir aðilar sem nefndir voru hér að ofan voru þeir einu sem flokkast til fruminnherja og keyptu fyrir meira en eina milljón króna.

Fleiri fruminnherjar keyptu þó bréf í félaginu en Kolbeinn Finnsson, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs, keypti hluti fyrir um 300 þúsund krónur en stjórnarmennirnir Kristín Guðmundsdóttir og Hreinn Jakobsson keyptu hluti fyrir um 184 þúsund krónur. Raunar keyptu sonur og maki Hreins einnig bréf fyrir sambærilega fjárhæð sem er í samræmi við það sem almennt var úthlutað í útboðinu fyrir utan starfsmenn N1 og viðskiptavaka sem ekki urðu fyrir skerðingu heldur fengu úthlutað í samræmi við gerð tilboð. Maki Margrétar Guðmundsdóttur, stjórnarkonu í N1, keypti einnig fyrir 184 þúsund krónur í útboðinu sem og maki Kristínar Guðmundsdóttur. Þá keypti dóttir Eggerts Þórs bréf fyrir um 100 þúsund krónur.

Ítarlega er fjallað um hlutabréfaútboðið og skráningu N1 í Kauphöllina í Viðskiptablaðinu í dag. Sömuleiðis hefur verið fjallað um skráninguna í VB Sjónvarpi í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.