„Enginn er eilífur í starfi. Þetta er eðlileg þróun í starfi hjá fyrirtæki sem hefur skipt um eigendur,“ segir Hermann Guðmundsson, nú fyrrverandi forstjóri N1. Stjórn N1 sagði honum upp störfum í morgun og mætir hann ekki oftar til vinnu hjá olíuversluninni. Eftir uppsögnina tók Hermann til á skrifborðinu á skrifstofu sinni og dreif sig í golf. Þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum síðdegis í dag sagðist hann hafa þurft að nýta sér góða veðrið. Hermann var þá staddur á golfvellinum í Öndverðarnesi í Grímsnesi.

Greint var frá því í dag að Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, muni taka við forstjórastólnum af Hermanni í september.

Uppsögn Hermanns markar tímamót hjá N1 en efsta lagi fyrirtækisins, þ.e.a.s. forstjóra og stjórn, hefur nú verið skipt út. Á hluthafafundi félagsins á morgun taka fulltrúar lánardrottna við stjórnartaumum.

Nánar er fjallað um N1 í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Á meðal efnis í Viðskiptablaðinu er:

  • Skatturinn á eftir sjómönnum
  • Atvinnuleysið þróast í rétta átt
  • Frakkar gleypa Alfesca með húð og hári
  • Kröfuhafar bankanna gætu þurft að færa sig
  • Samkeppniseftirlitið Íslandspóst undir smásjánna
  • Rekstri Samherja skipt upp
  • Ýmislegt um vaxtabraskið hjá Barclays-banka
  • Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í ítarlegu viðtali
  • Laxasetrið á Blönduósi
  • Vatnskóngurinn Jón Ólafsson
  • Óðinn veltir fyrir sér hvert stefnir í efnahagslífinu
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað ásamt Tý sem skrifar um fjárframlög til bandarískra forsetaframbjóðenda
  • Myndasíður, umræður, aðsendar greinar og margt, margt fleira...