Hans-Ole Jochumsen, forstjóri Nasdaq OMX Nordic sem kauphöllin á Íslandi á aðild að, segir þá ósk stjórnar Össurar hf. að afskrá félagið hér á landi, vera áfall fyrir markaðinn á Íslandi.

„Að miklu leyti má rekja þetta til gjaldeyrishafta sem eru að reynast einstaklega sársaukafull fyrir íslenskt viðskiptalíf. Þetta ástand [gjaldeyrishöftin innsk. blm.] má ekki dragast á langinn að óþörfu. Þetta breytir því samt ekki að það er áhugi fyrir hendi hjá félögum að skrá bréf á markaðinn strax á næsta ári og áætlanir uppi um að horfa fram á við. Þetta segir okkur líka það að það er krafa uppi um að vera með innlendan markað sem hjálpar fyrirtækjum að vaxa, líkt og sýndi sig í tilfelli Össurar sem varð stórt alþjóðlegt fyrirtæki með hjálp innlends hlutabréfamarkaðar,“ sagði Hans-Ole við Viðskiptablaðið.

Hans-Ole er yfirmaður kauphallanna á Norðurlöndum, í Helsinki, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi, og einnig í Eystrasaltslöndunum, í Riga, Vilnius og Tallin, auk íslensku kauphallarinnar.

Titringur er í hluthafahópi Össurar vegna ákvörðunar stjórnar fyrirtækisins að afskrá félagið hér á landi og vera með það einungis á markaðnum í Kaupmannahöfn. Stjórn félagsins var ekki einhuga í afstöðu sinni til þess hvort rétt væri að afskrá félagið.

__________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .