Stephen Elop, forstjóri farsímaframleiðandans Nokia, fær engan bónus fyrir síðasta ár frá fyrirtækinu. Óþarfi er þó að vorkenna honum mikið því hann fékk um 4,33 milljónir evra í fyrra, andvirði um 710 milljóna íslenska króna. Árið 2011 námu laun og bónusar Elops 7,94 milljónum evra og er því um töluverða lækkun að ræða.

Umræddar 4,33 milljónir eru annars vegar grunnlaun upp á 1,08 milljón evra og hins vegar 2,63 milljónir evra í kaupréttum, sem eru háðir því að markmið um hlutabréfaverð náist. Árin 2010 og 2011 fékk Elop um eina milljón evra á ári í bónusgreiðslur í reiðufé.

Nokia ætlar að draga úr kostnaði á þessu ári meðal annars með því að minnka fjárfestingu í fastafjármunum um 24%.