Risaolíufyrirtækið Shell í Hollandi (Royal Dutch Shell) hefur nú lokið tíu mánaða þrotlausri leit að nýjum stjórnarformanni. Öllum að óvörum réð það finnska símagúrúinn Jorma Ollila forstjóra Nokia. Hann kynnti í síðustu viku áform sín um að setjast í helgan stein en mun fá 500.000 pund á ári fyrir að taka að sér stjórnarformennskuna hjá Shell í júní á næsta ári. Það samsvarar um 56,5 milljónum íslenskra króna.

Á vefsíðu news.telegraph segir að hinn 54 ára gamli Jorma Ollila, sem sé þjóðhetja í sínu heimalandi, muni leysa af hólmi Aad Jacobs sem hefur verið stjórnarformaður í Hollenska armi Shell síðan 2002. Aad Jacobs sest í helgan stein þegar hann verður sjötugur á næsta ári. Hann gaf í skyn nýverið að hann hefði í sigtinu eftirmann sem hvorki væri breskur né hollenskur til að trufla ekki viðkvæmt valdajafnvægi milli olíurisanna í þessum löndum.

Shell hefur gagnrýni á undanförnum mánuðum ekki síst frá fjárfestum. Jorma Ollila mun þó ekki skipta sér af daglegum rekstri, en stýra breytingum á stjórnendaliði Shell samsteypunnar. Mun honum ætlaða að starfa tvo til þrjá daga í viku í höfuðstöðvum Shell í Hag.

Þrátt fyrir þessi tíðindi lækkuðu B hlutabréf í félaginu um 13 pens. Hins vegar virðast stærstu hluthafarnir fagna ráðningu Jorma Ollila. Þar líta menn einkum á mikla reynslu hans í alþjóðlegum viðskiptum þó hann hafi ekki sérþekkingu á olíuiðnaðinum sem slíkum.

Jorma Ollila er einkum þekktur fyrir að breyta þunglamalegri Nokia samsteypunni í stærsta farsímaframleiðanda heims. Hann gekk til liðs við félagið 1985 en hafði áður unnið hjá Citibank í um átta ára skeið. Þegar hann kom að félaginu var megináhersla Nokia á pappírsframleiðslu og rekstur sögunarmilla í Finnlandi. Eigi að síður var starfsemi Nokia fjölbreytt og framleiddi það þá allt frá klósettpappír til sjónvarpstækja.

Jorma Ollila hristi upp í rekstrinum árið 1992 þegar hann varð forstjóri. Þá seldi hann ýmsa starfsemi frá félaginu og beindi sjónum fyrirtækisins að framleiðslu símabúnaðar. Nokia yfirtók bandaríska símaframleiðandann Motorola árið 1998 og varð þá stærsti farsímaframleiðandi heims og varð í kjölfarið talið verðmætasta fyrirtæki í Evrópu.