Forstjóri Nordea, Christian Clausen, segir í samtali við Dagens Næringsliv að það versta sé að baki í fjármálakrísunni sem gengið hefur yfir markaði í nokkra mánuði.

„Ég ætla alls ekki að fegra ástandið. Undirmálslánakrísan hefur verið og er alvarleg fjármálakrísa, en ég er ekki lengur eins áhyggjufullur og ég var fyrir nokkrum mánuðum. Það versta er að baki,“ segir Clausen í samtali við DN. Ástæður þessa eru þær að hann telur að nú sjáist umfang krísunnar.

Megnið af tapinu kemur fram á næstu sex mánuðum

Forstjóri Nordea, stærsta banka Norðurlandanna, segir að Bandaríkin séu á leið inn í samdrátt og að sá samdráttur muni draga úr vexti í Evrópu. Hins vegar sé ekki útlit fyrir efnahagslega krísu þar. Hann telur óvissuna minni en hún hafi verið fyrir nokkru, en að áfram muni berast fréttir um töp tengd bandarískum fasteignalánum. Hann telur að heildartapið verði um 250 milljarðar dala, um 16 þúsund milljarðar króna, og að fram að þessu hafi um 120 milljarðar dala komið fram. Megnið af því tapi sem á eftir að koma fram gerir það á næstu sex mánuðum, að mati Clausen, sem segir að krísan hafi ekki snert Nordea.

Verðlækkun á norrænum fasteignamarkaði heilbrigðismerki

Clausen telur að verðlækkun á norrænum fasteignamarkaði sé aðeins heilbrigðismerki. Hann telur að reynslan frá Danmörku í fyrra sýni að verðlækkunin muni ekki valda bönkunum vanda.