Það að fyrirtæki eru ýmist í eigu þrotabúa eða fyrirtækja nátengdum bönkunum og hafa fengið miklar afskriftir af lánum sem samkeppni á milli fyrirtækja óheilbrigða, að mati þeirra Benedikts Jóhannessonar, stjórnarformanns Nýherja, og Þórðar Sverrissonar, forstjóra fyrirtækisins.

Þeir rita saman inngangsorð í ársskýrslu Nýherja sem kom út í dag. Þar segja þeir m.a. að Nýherji hafi eins og mörg önnur fyrirtæki frá hruni íslenska fjármálakerfisins unnið sig markvisst út úr þeirri þröngu stöðu sem fyrirtækið var í. Á samkeppnismarkaði búi Nýherji þó enn við áðurnefndar aðstæður.

„Þær aðstæður að nokkrir meginkeppinautar eru í eigu þrotabúa eða fyrirtækja nátengdum bönkum og hafa fengið miklar afskriftir af lánum, sem veitir þeim fjárhagslegt svigrúm þannig að samkeppnin verður afar óheilbrigð,“ skrifa þeir.

Óvissa á Norðurlöndunum

Í innganginum benda þeir sömuleiðis á að rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð hafi einkennst af óvissu og minnkandi eftirspurn á liðnum misserum. Laskað hagkerfi hefur haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækja í upplýsingatækni eins og öðrum greinum. Fjárfesting í nýjum og stærri upplýsingatæknilausnum er minni en áður var og því séu færri verkefni í innleiðingu viðameiri kerfa, svo sem í hugbúnaði.

„Eftirspurn er þó talsverð eftir ýmsum sérhæfðum hugbúnaðarlausnum svo sem til að efla sölu- og markaðssetningu eða til að ná fram hagræðingu í rekstri fyrirtækja. Einnig leita viðskiptavinir eftir fjölþættum þjónustulausnum, þar sem Nýherji tekur að sér rekstur ákveðinna þátta í innra tækniumhverfi viðskiptavinanna sem þeir útvista og einbeita sér sjálfir betur að eigin kjarnastarfsemi.“