Laun Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns í KB banka voru 109 milljónir á árinu 2004 og voru laun Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra 97 milljónir króna. Sólon R. Sigurðsson kemur þar á eftir með 68 milljónir króna í laun en hann lét af störfum í árslok og mun hann fá greidd laun að fjárhæð 60 milljónum króna á næstu tveimur árum samkvæmt starfslokasamningi.

Sigurður á 2,5 milljónir hluta í bankanum og á Hreiðar Már tvær milljónir hluta í árslok. Hreiðar á kauprétt að 3.642 milljónum hluta og sölurétt að 812 milljón hlutum. Sigurður Einarsson á kauprétt að 4.080 milljónum hluta og sölurétt að 812 milljón hlutum. Kaupréttarsamningar forstjóra, stjórnarformanns og framkvæmdastjóra bankans voru gerðir á árunum 2000 til 2004 og miðast við gengin 210 og 303. Þeir eru innleysanlegar á árunum 2005 til 2008. Samningar um sölurétt forstjóra, stjórnarformanns og framkvæmdastjóra bankans voru gerðir á árunum 2003 og 2004 og miðast við gengin 210 og 303. Þeir eru innleysanlegir á árunum 2006 og 2008.