Forstjóri Og Vodafone, Eiríkur S. Jóhannsson, verður gestur í Viðskiptaþættinum sem hefst klukkan 16 á Útvarpi Sögu. Tilefnið er kaup félagsins á Norðurljósum en einnig verður rætt um 9 mánaða uppgjör félagsins.

Eftir um það bil klukkustund verður ljóst hvaða fyrirtæki hlotnast sá heiður að hampa titlinum markaðsfyrirtæki ársins. Það er ÍMARK félag íslensks markaðsfólks sem veitir viðurkenninguna, en að þessu sinni eru það Actavis, KB banki og Iceland Express sem eru tilnefnd. Á sama tíma verður einnig valinn markaðsmaður ársins. Við ætlum að heyra í formanni ÍMARK, Birni Víglundssyni og kanna stemninguna og heyra af því hvers vegna þessi félög eru einmitt tilnefnd.

Í síðari hluta þáttarins verður fjallað um uppgjör Medcare Flögu, en félagið náði þeim ánægjulega áfanga að hagnast á þriðja ársfjórðungi. Afkoma félagsins fyrir árið í heild er þó neikvæð en þriðji ársfjórðungur er sá fyrsti sem inniheldur rekstur SleepTech í samstæðunni, en Medcare Flaga keypti það félag í júní síðsastliðnum til að breikka starfsvettvang félagsins.

Þátturinn endar á umfjöllun um nýjun á lánamarkaði en það er ekki bara á húsnæðislánamarkaði sem menn geta fengið 4,2% vexti á lánum, Hekla hefur nú riðið á vaðið og býður fólki að kaupa notaða bíla á lánum með 4,2% vöxtum og það sem meira er - þeir lána þér hverja einustu krónu sem þú þarft á að halda til að kaupa bílinn - jafnvel kaupverðið allt. Tryggvi Jónsson, forstjóri Heklu kíkir í heimsókn til að ræða þetta nýjasta útspil á bílamarkaðnum.