„Afkoma Orkuveitunnar á síðasta ári var prýðileg. Hún þurfti líka að vera það,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Hagnaður OR nam 3,3 milljörðum króna í fyrra. Það er 6,2 milljarða betri afkoma en árið 2012.

Haft er eftir Bjarna í uppgjörstilkynningu OR að h áar fjárhæðir voru á gjalddaga hjá OR í fyrra og mikilvægt að standa við allar skuldbindingar. Það hafi tekist og gott betur .

Í uppgjörstilkynningu OR segir að hagræðing í rekstri og umfangsmiklar ráðstafanir, sem stjórn fyrirtækisins og eigendur þess (Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð), samþykktu á árinu 2011, hafi skilað mun meiri og skjótari árangri en gert var ráð fyrir þá. Aðgerðaáætlun OR, Planið svokallaða, er til ársloka 2016 og þegar til ráðstafana var gripið fékk Orkuveitan víkjandi lán hjá eigendum sínum til að koma í veg fyrir sjóðþurrð um mitt ár 2011.

„Nú þegar gildistími Plansins er hálfnaður sýnir ársreikningur samstæðu Orkuveitunnar, sem stjórn fyrirtækisins samþykkti í dag, að tekist hefur að „ná í hús“ ríflega 42 milljörðum króna af þeim 51 milljarði sem ráðstafanirnar áttu að skila í heild sinni,“ segir í tilkynningunni.