Orkuveita Reykjavíkur hagnaðist um tæpa 3,4 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er öllu betri staða en á sama tíma í fyrra þegar OR tapaði tæpum 7,9 milljörðum. Á þriðja ársfjórðungi einum hagnaðist OR um rúma 5,3 milljarða nú samanborið við tæpan 3,1milljarða á sama tíma í fyrra.

Tekjur OR námu tæpum 27,3 milljörðum króna frá síðustu áramótum sem er tæpum þremur milljörðum meira en í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi námu tekjurnar átta milljörðum króna sem er rétt rúmum 200 milljónum meira en á sama fjórðungi fyrir ári.

Engin froða 

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir mikilvægt að reksturinn sé kominn á lygnan sjó og vísaði til þess að á sama tíma og rekstrartekjur hafi aukist standi gjöld í stað. Þá vísaði hann í rekstrarhagnað OR máli sínu til stuðnings. Hagnaðurinn í þeim lið nam 11 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og var það 1,7 milljörðum meira en í fyrra.

„Reksturinn er kominn í mjög gott form,“ sagði hann og benti á að afkoman hafi verið neikvæð undanfarin misserið þar sem liðir sem ekki tengist sjóðsstreymi, s.s. færslur vegna breytinga á gengi og breytingar á framtíðartekjum vegna álverðs, hafa fram til þessa ruglað uppgjörið.

„Við velum að horfa á EBITDUNA en ekki það sem stundum er kallað froðufærslur og koma og fara en fela ekki í sér sjóðsstreymi. Rekstrarbreytingin er því varanleg,“ sagði Bjarni.