Starfsfólki Orkuveitunnar hefur fækkað verulega á undanförnum árum og miklar breytingar orðið á skipuriti og stjórnendahópi félagsins. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR),segir að það sé lykilatriði að ráða góða stjórnendur á öllum stigum og af báðum kynjum.

„Ég sá að þarna var tækifæri og ég hef hugsað mikið um þessi mál. Ef þú spyrð karlstjórnendur þá segja þeir væntanlega undantekningarlaust að þeir styðji jafnrétti. En svo bæta margir við að þeir geti ekki farið fram úr því sem gengur og gerist í samfélaginu. Ég er ekki sammála því. Það er ekki nóg að styðja jafnrétti heldur þarf að fremja það. Við erum í þeirri stöðu, við karlarnir í fyrirtækjum, að við getum ákveðið að breyta þessu. Það eigum við að gera og þá breytist samfélagið hraðar. Þá geta hinir fylgt á eftir og eiga ekki afsökun lengur,“ segir Bjarni sem er sannfærður um að fjölgun kvenna í stjórnendahópnum hafi gert Orkuveituna að betra og skemmtilegra fyrirtæki.

Fáar konur eru með iðnmenntun

„Hópur sem er einkynja, sama hvort það eru konur eða karla, verður miklu leiðinlegri og þröngsýnni en ella. Mér finnst sérstaklega gaman núna í stjórnendateyminu að það eru konur og karlar alls staðar. Það verður miklu opnari umræða. Menn eru óhræddir að tala um hlutina. Fyrirtækið verður betur rekið, skemmtilegra og opnara,“ segir Bjarni en Orkuveitan hlaut fyrir skömmu jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs. Í dag eru 42% stjórnenda Orkuveitunnar konur en þær telja hins vegar aðeins um þriðjung starfsmanna.

Bjarni segir að verið sé að leita leiða til að efla hlut kvenna í öðrum störfum í Orkuveitunni en iðnmenntaðar konur séu fáar og það hamli. „Nú langar okkur að stíga skrefið lengra og leggja okkar af mörkum til að auka hlut kvenna í iðnmenntun og í tæknigeiranum. Við vitum ekki enn hvernig við förum að því en við lofuðum því þegar við fengum jafnréttisverðlaunin að það yrði næsta skref að leita eftir samstarfi með skólunum, stjórnvöldum, öðrum fyrirtækjum og stéttarfélögum til að finna leiðir að því marki.“

Ítarlegt viðtal má lesa við Bjarna í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. apríl 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .