Í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, að félagið hygist fara sér hægt í kaup á fyrirtækjum á næstunni en þó sé félagið að skoða kaup á minni félögum, meðal annars til að styðja við vöxt þess í stuðningstækjaiðnaðinum.

Talsmenn Össurar greindu frá því  fyrir nokkrum misserum að félagið hygðist færa sig yfir á stuðningstækjamarkaðinn, sem er talsvert stærri en stoðtækjamarkaðurinn sem það hefur starfað á frá upphafi. Að sögn Jóns hefur innkoma félagsins á þennan nýja markað gengið ágætlega.  "Auðvitað er það þannig að fyrirtækjauppkaup, umskipti og þessi algera breyting á fyrirtækinu hefur haft verulega áhrif, meðal annars á arðsemi. Arðsemi fer óhjákvæmilega niður eftir hrinu uppkaupa og það gerði það árin 2002 og 2003 og okkur var ekki hampað í kjölfar þess. Við erum að koma út úr svipuðu tímabili varðandi stuðningstækin um þessar mundir," segir Jón í viðtalinu.

Stækkunin tekur í

En um leið er komin nokkur reynsla á það hvernig gengur að sameina framleiðslu og sölu stuðnings- og stoðtækja innan eins og sama fyrirtækisins. Jón segir við Viðskiptablaðið að full reynsla sé ekki komin á það ennþá en þeir séu sannfærðir um að þetta gangi. "Ég er sannfærður um það og við höfum gert þetta áður og það er því ekkert nýtt fyrir okkur. Það er hægt að flytja tækni milli þessara geira og ekki síður sölukerfi. Þetta styður hvað annað."  Þess má geta að markaðurinn fyrir stoðtæki  er um 650 milljónir Bandaríkjadala á ári en markaðurinn fyrir stuðningstæki er 2,7 milljarðar dala.

En stækkun félagsins hefur tekið mjög í. "Svona miklar stækkanir gera það verkum að það tekur tíma að ná upp hagkvæmni í rekstri. Sú leið sem við fórum var á ystu mörkum þess sem hægt var. Við höfum ekki keypt fyrirtæki í tæplega þrjú ár og verið að melta það sem var búið að innbyrða."

Munu þið fara aftur af stað?

"Það er ljóst að meðan fjárhagskerfi heimsins eru eins og þau eru þá eru stórar yfirtökur ekki mögulegar. Við höfum hins vegar verið að skoða minni kaup á fyrirtækjum sem styðja okkar dreifikerfi.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag