Laun Jóns Sigurðssonar, forstjóra stoðtækjaframleiðandans Össurar, námu 1343 þúsund dölum á síðasta ári. Það jafngildir um 158 milljónum króna, samkvæmt núverandi gengi krónunnar, eða rúmlega 13 milljónum króna á mánuði.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Össurar fyrir síðasta ár.

Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri félagsins, var með 445 þúsund dali í laun og launatengdar greiðslur á síðasta ári. Það jafngildir um 52 milljónum króna eða 4,4 milljónum á mánuði.

Þá fékk Ólafur Gylfason, framkvæmdastjóri Össur Europe, 500 þúsund dali í laun á síðasta ári. Það eru um 59 milljónir króna í árslaun eða um 4,9 milljónir króna á mánuði. Mahesh Mansukhani, framkvæmdastjóri Össur North-America, var með 520 þúsund dali í laun á síðasta ári.

Laun og launatengdar greiðslur Egils Jónssonar, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs, voru tæpar 40 milljónir króna á síðasta ári, eða 339 þúsund dalir. Árslaun Hilmars Braga Janussonar, framkvæmdastjóra rannsóknar- og þróunarsviðs, voru um 43 milljónir króna samkvæmt núverandi gengi dollars, eða 365 þúsund dollarar.

Hagnaður félagsins á síðasta ári nam rúmlega 4 milljörðum króna.