Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, keypti í gær 76.000 hluti í félaginu á genginu 8,3 danskar krónur á hlut. Kaupverðið á hlutnum er því um 14,3 milljónir íslenskra króna, en eftir kaupin á Jón alls hlutabréf í Össuri að verðmæti 63,4 milljóna íslenskra króna.

Nýlega kom fram að samkvæmt síðasta ársuppgjöri Össurar var Jón með tæpa 180 milljónir króna í árslaun, sem þýðir að mánaðarlaun hans voru um 15 milljónir króna. Hjörleifur Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Össurar, nýtti sér sömuleiðis kauprétt á dögunum.

Leiðrétting: Í fréttinni sagði að Jón hafi nýtt kauprétt við hlutabréfakaupin. Hið rétta er að hann keypti bréfin á markaðsvirði og á ekki kauprétt á bréfum í félaginu.