Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir að starfsemi félagsins hér á landi muni ekkert minnka þrátt fyrir að Össur verði afskráð úr Kauphöll Íslands eins og tilkynnt var um fyrr í dag.

Hann segir starfsemina hér á landi afar mikilvæga og ekki standi til að færa hana úr landi þrátt fyrir að hluthafar í fyrirtækinu séu að miklu leyti erlendir.

„Við höfum fjölgað um 20 stöðugildi á þessu ári og það er ekkert annað í spilunum en að vöxturinn haldi áfram. Starfsemin hér á landi er ekki að fara neitt þrátt fyrir þessar breytingar."

Össur hefur á 10 árum tuttugufaldast að stærð. Tekjur fyrirtækisins koma allar erlendis frá, ekki síst frá Bandaríkjunum. Jón segir að skráning Össurar á markað í Kaupmannahöfn, í september í fyrra, hafi heppnast vonum framar og að fyrirtækinu hafi verið afar vel tekið á mörkuðum.

„Erlendir fjárfestar hafa sýnt félaginu mikinn áhuga frá því að það var skráð á markað, ívið meiri áhuga en fjárfestar hér á landi. Þessi aðgerð nú er því rökrétt framhald að því hversu vel okkur hefur verið tekið, bæði á hlutabréfa- og fjármálamörkuðum erlendis," sagði Jón í samtali við Viðskiptablaðið.