*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 31. desember 2020 12:51

Forstjóri Play svarar Boga Nils

Arnar Már telur ummæli Boga Nils endurspegla áhyggjur Icelandair af innkomu Play á íslenskan flugmarkað.

Ritstjórn
Arnar Már Magnússon, forstjóri Play Air.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði í viðtali við Markaðinn að þó hann bæri virðingu fyrir allri samkeppni og að öflugir einstaklingar stæðu að baki Play Air, væri það hans skoðun að „það sé engan veginn raunhæft að reka tvö flugfélög frá Íslandi sem eru með Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð."

Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, er ekki sammála.

„Við óskum Icelandair að sjálfsögðu velfarnaðar eftir erfitt ár," segir Arnar Már í samtali við Viðskiptablaðið. „En varðandi þessa staðhæfingu Boga um að það sé engan vegin raunhæft að reka tvö flugfélög með Keflavík sem tengimiðstöð þá liggur auðvitað fyrir að ný flugfélög hætta sér einmitt inn á þennan markað í samkeppni við Icelandair vegna þess að þau geta boðið betur.

Við teljum að Íslendingar kunni vel að meta samkeppni íslensku félaganna og vilji forðast fákeppni. Dæmin sanna að þegar Íslendingum býðst nútímaleg þjónusta, nýr, hagkvæmur og öruggur flugfloti og hagstæðari fargjöld en áður þá grípa þeir tækifærið og okkar erlendu gestir líka."

Arnar Már segir að þessi markaður sem framboðsdrifinni og fullyrðir að rekstrarmódel Play sé mun hagkvæmara en módel Icelandair, sem þýði að Play muni geta boðið betur.

„Miðað við þessar forsendur sem Bogi gefur sér þá teljum við að ummælin lýsi einmitt því að Icelandair hefur augljósar áhyggjur af innkomu Play á markaðinn." segir Arnar Már.