Forstjóri pólska símafyrirtækisins Netia, Wojciech Madalski, hefur ákveðið að hætta störfum hjá fyrirtækinu, sem er að hluta til í eigu fjárfestingafélagsins Novators.

Netia greindi frá þessu í morgun og segir Madalski hafa ákveðið að hætta af persónulegum ástæðum. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á rúmlega 25% hlut í Netia og hefur gefið til kynna að félagið hafi áhuga á að auka hlutinn enn frekar.

Heildartap Netia-samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi nam 298,6 milljónum króna, en á sama tíma í fyrra var hagnaður fyrirtækisins 590 milljónir króna.

Netia segir að stofnkostnaður vegna þráðlausra netkerfa þar í landi sem og samdráttur í aðaltekjulindum fyrirtækisins séu ástæður tapsins.

Hins vegar reiknar fyrirtækið með að hagnaður fyrirtækisins muni aftur aukast á síðari hluta árs, en þá mun fyrirtækið opna háhraðastöðvar í 20 borgum og þá munu einnig byrja að streyma inn tekjur frá P4 fyrirtækinu sem keyrir á þriðju kynslóðar farsímatækni, en Netia á 30% hlut í P4 og Novator 70%