Tom Albanese, forstjóri Rio Tinto, sem er eigandi álversins í Straumsvík, telur að framleiðsla raforku með notkun kjarnorku verði stöðugt fýsilegri kostur í ljósi hækkandi orkuverðs og aukinnar eftirspurnar eftir rafmagni.

Bendir Albanese á að sífellt verði erfiðara að fá leyfi til að framleiða raforku með kolum eins og mörg álver í Evrópu hafa reitt sig á. Þá hafi til dæmis lokun á kjarnorkuveri í Bretlandi leitt til þess að álveri samsteypunnar í nágrenni við það var lokað.

Rio Tinto er með úraníum-námuvinnslu svo það hefur hag af áframhaldandi raforkuvinnslu í kjarnorkuverum. Albanese telur að samhliða því að koltvísýringsútblástur verður stöðugt hærra verðlagður þá versni hagur kolaorkuveranna enn frekar. Það muni á ný gera raforkuframleiðslu með kjarnorku meira aðlaðandi.

Kjarnorkan geti því leyst af hólmi raforkuframleiðslu sem nú fer fram með kolum. Vissulega muni vind- og vatnsorka líka koma þar við sögu.

„Það tekur þó mörg ár að þróa þetta. Ef ég ætti að spá til um næstu fimm ár þá yrði ég ekki mjög bjartsýnn. Það verður þó líklega sókn í þessa átt eftir 2020.“