Alfredo Sáenz, forstjóri spænska bankans Santander hefur sagt starfi sínu lausu. Sáenz og Emilio Botín, stjórnarformaður Santander, breyttu Santander úr fremur litlum banka á Spáni í einn af stærstu bönkum heims. Ástæðan fyrir því að Sáenz ákvað að hverfa á braut er rannsókn spænska fjármálaeftirlitsins á því hvort hann hafi brotið af sér í starfi. Hugsanlegt er að honum verði meinað að starfa í fjármálageiranum áfram.

Sáenz var áður bankastjóri Banesto, sem Santander keypti. Sáenz hefur verið einn af launahæstu bankastjórum Spánar. Laun hans námu 8,23 milljónum evra í fyrra, jafnvirði rúmra 960 milljóna króna. Uppsafnaður lífeyrir hans hjá bankanum er tífalt hærri, að því er breska dagblaðið Financial Times segir á vef sínum.