Annar tveggja forstjóra danska bankans Saxo Bank segir að styrking evrunnar undanfarna mánuði sé tálsýn og að evran sé dauðadæmd vegna þess að evrusvæðið er ekki með sameiginlega fjárlagastjórn.

Lars Seier Christensen lét þessi orð falla í viðtali sem Bloomberg tók við hann á skrifstofu Saxo Bank í Dubai. Hann segir að styrking evrunnar nú sé til komið vegna þess að svæðið sé nú „í einni af þessum falslausnum, þegar fólk heldur að búið sé að hemja vandann eða leysa hann, en það er bara alls ekki þannig.“

Evran hefur styrkst um 8,2% gagnvart Bandaríkjadal undanfarna sex mánuði og var gengið 1,3711 dalir á móti evru þann 1. febrúar síðastliðinn. Christensen segist ekki veðja á móti evrunni, en segir þó að hann myndi selja meira af gjaldmiðlinum ef gengið færi nærri 1,4 á móti dollaranum.