Dæmi eru um að kostnaður við skráningar sumra félaga í Kauphöll sé meira en þrefalt hærri en annarra fyrirtækja. Í lýsingu félaga fyrir skráningu er yfirleitt birtur áætlaður kostnaður við skráningu en sem dæmi má nefna að áætlaður kostnaður Eimskip við skráningu félagsins var 227 milljónir, kostnaður N1 um 200 milljónir en kostnaður Regins einungis um 70 milljónir. Þá var kostnaður VÍS einungis 10 milljónir en félagið bar einungis hluta af kostnaðinum við skráninguna í kauphöll.

Samanlagðar tekjur bankanna vegna þessara níu skráningarverkefna eftir bankahrun nema samanlagt yfir einum milljarði króna miðað við áætlanir í lýsingu. Þá á eftir að taka saman tekjur sem fjármálafyrirtækin fá frá seljendum hlutabréfa í útboðum í aðdraganda skráningar. Einnig er ekki alltaf að finna endanlegan kostnað við skráningar í ársreikningum félaganna sem hafa verið skráð á markað.

Kostnaðarsamt að hafa tvo

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir að þegar farið var með félagið á markað hafi skráningarferlið verið nokkuð óplægður akur enda hafði ekki verið mikið um skráningar frá hruni. Hann segir kostnaðinn við skráninguna hafa falist að nokkru leyti í því að tveir aðilar, Straumur og Íslandsbanki, hafi verið fengnir til verksins. Stjórnendur Eimskips hafi talið það bestu leiðina. „Við vissum alltaf að það myndi kosta meira en við töldum að það yrði meiri breidd í því að vera með tvo aðila,“ segir Gylfi en alls fengu átta aðilar að skila inn tilboðum og kynna hugmyndir sínar fyrir stjórnendum félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .