„Þetta eru veruleg vonbrigði,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, um úrskurð Áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem í segir að Síminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að beita keppinauta sína samkeppnishamlandi verðþrýstingi.

Samkeppniseftirlitið lagði 390 milljóna króna sekt á Símann á vordögum og er hún að fullu greidd. Áfrýjunarnefndin lækkaði hins vegar sektina um 50 milljónir og fær Síminn fjárhæðina endurgreidda.

Sævar segir í samtali við vb.is með eindæmum að niðurstaða virtra erlendra sérfræðinga í samkeppnisrétti sem hafi unnið álit um málið fyrir Símann virt að vettugi hjá áfrýjunarnefndinni. Sérfræðingarnir fjalla í álitum sínum m.a. um röksemdarfærslu Samkeppniseftirlitsins sem þeir telja að standist ekki.

Sævar bendir á að margt í máli Samkeppniseftirlitsins gangi ekki upp, svo sem að ný fyrirtæki á markaði njóti svokallaðs jákvæðs mismunar. Samkvæmt því hafi Síminn því greitt meira til þeirra en þau til Símans eða sem nemur 2,4 milljörðum króna.

„Af þessari ástæðu einni er útilokað að við höfum verið að beita verðþrýstingi,“ segir Sævar og bætir við, að unnið sé að því að skjóta úrskurðinum til dómsstóla.