„Það var enginn kúgaður af Lárusi Welding og maður gat látið ýmislegt flakka. Sumt af þessu rataði í fjölmiðla og þótti fyndið í ljósi þess sem síðar gerðist. Jón Ásgeir kom inn sem stór hluthafi nokkuð seint,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs í viðtali við Viðskiptablaðið þar sem hann fer yfir rekstur félagsins, stöðu og samkeppni olíufélaganna almennt og mögulega skráningu á markað. Þá svarar Einar Örn spurningum um síðustu daga Glitnis þar sem hann var áður starfsmaður.

Einar Örn starfaði sem kunnugt er hjá Glitni áður en hann varð forstjóri Skeljungs.

Frá því að hann tók við nýju starfi hefur ýmislegt komið í ljós varðandi starfsemi bankans og æðstu stjórnendur og eigendur á síðustu mánuðum fyrir hrun.

Nafn Einars Arnar hefur lítillega fléttast inn í þá umfjöllun þar sem hann var framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar og síðar fjárfestingarbankasviðs bankans fram að hruni. Þegar blaðamaður minnist á þetta og ummæli hans úr tölvupóstum sem hafa birst opinberlega má heyra að Einar Örn er síður en svo smeykur við að ræða um þennan tíma. „Ég starfaði lengi hjá Glitni og forverum hans. Ég er ekkert búinn að gleyma þeim tíma og ætlast ekki til þess að aðrir geri það. Síðustu mánuðirnir voru auðvitað mjög dramatískir,“ segir hann.

„En það voru margar hreyfingar á stjórn síðustu 10 ár fyrir hrun bankans. Ég held hins vegar að fæstir starfsmenn hafi litið á sig sem starfsmenn eða þjóna formanns bankaráðsins eða stærsta eigandans. Menn voru bara í vinnunni sinni og reyndu að vinna hana vel,“ segir Einar Örn.

Nánar er rætt við Einar Örn í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.