Valgeir Baldursson er nýráðinn forstjóri Skeljungs en hann tekur við starfinu af Einari Erni Ólafssyni sem sagði upp fyrirskömmu. Fram undan er vinna við skráningu félagsins á markað en stefnt hefur verið að skráningu félagsins í kauphöll jafnvel á næsta ári.

Valgeir þekkir vel til innan Skeljungs enda hefur hann starfað hjá félaginu frá árinu 2009. Fyrst sem fjármálastjóri félagsins og síðar sem framkvæmdastjóri neytendasviðs frá árinu 2011. Áður en Valgeir hóf störf hjá Skeljungi starfaði hann hjá SPRON, meðal annars sem fjármálastjóri og framkvæmdastjóri fjárfestinga. Þar á undan starfaði hann við ýmis ráðgjafastörf hjá Áliti, GSP Samskiptum og KPMG. Þar á undan hafði hann starfað um nokkurra ára skeið í Noregi hjá sölu og markaðssviði Adidas þar í landi.

Fjölskyldan á skíði

Spurður út í hvað hann taki sér fyrir hendur í frítíma sínum nefnir Valgeir að hann hafi gaman af því að veiða á flugu á sumrin. Einnig hefur hann gaman af því að fara á skíði og ferðast með fjölskyldunni.

„Þetta eru mikið til ferðalög innanlands með krakkana. Við höfum gert mikið af því,“ segir Valgeir sem játar því að sumarið sé notað til að keyra hringinn um landið. Hann segir að á ferðalögunum hér innanlands sé reynt að finna nýja staði til að skoða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .