*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 7. júní 2019 13:03

Forstjóri Skeljungs hættir

Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs hf., hefur sagt starfi sínu lausu. Hann tilkynnti stjórn félagsins um þetta í dag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs hf., hefur sagt starfi sínu lausu. Hann tilkynnti stjórn félagsins um þetta í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Egholm hefur starfað hjá Skeljungi í tólf ár. Fyrstu tíu árin sem forstjóri dótturfélags þess í Færeyjum en undanfarin tvö ár sem forstjóri Skeljung. Hann mun halda áfram að vinna fyrir félagið sem forstjóri Magn í Færeyjum og starfa áfram sem forstjóri þar til eftirmaður hans er fundinn.

„Síðustu 2 ár sem forstjóri Skeljungs hafa verið bæði spennandi og skemmtileg. Ég hef notið þeirra ánægju að vinna með mjög hæfileikaríku og öflugu samstarfsfólki við að breyta og bæta rekstur Skeljungs, sem og að útfæra og innleiða stefnu fyrir samstæðuna. Fjöldi verkefna hafa verið hrundið af stað og þau kláruð með góðum árangri. Í ljósi þess að flest þeirra verkefna sem ég tók að mér fyrir 2 árum er nú lokið og með nýju eignarhaldi og nýrri stjórn til ég nú réttan tíma fyrir mig til að taka skref til baka og einbeita mér að starfi mínu sem forstjóri Magn,“ er haft eftir Hendrik í tilkynningunni.

Þetta er önnur uppsögnin hjá Skeljungi á stuttum tíma en í upphafi mánaðar sagði Ingunn Agnes Kro, framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs, starfi sínu lausu.

Ný stjórn Skeljungs var kjörin á hluthafafundi þann 27. maí síðastliðinn. Hann fór fram eftir að 365 Miðlar ehf. óskuðu eftir honum en vikurnar á undan hafði félagið losað um eign í Högum og keypt tæp 11% í Skeljungi. Í kjölfarið var Jón Ásgeir Jóhannesson meðal þeirra sem náði kjöri í stjórn.

Stikkorð: Skeljungur