„Fyrir tuttugu árum keyptu menn bara tvist og rúðuþurrkur á bensínstöðvum. Síðan varð þetta að nokkurs konar þægindavöruverslunum en síðan hefur þetta þróast frá þeim meira út í nokkurs konar skyndibitastaði,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs í viðtali við Viðskiptablaðið þar sem hann fer yfir rekstur félagsins, stöðu og samkeppni olíufélaganna almennt og mögulega skráningu á markað. Þá svarar Einar Örn spurningum um síðustu daga Glitnis þar sem hann var áður starfsmaður.

Um breytinguna á rekstri olíuverslunar segir Einar: „Þegar olíufélögin fóru út í þægindavöruverslanir var sá markaður ekki til. Síðan komu verslanir eins og 10-11 og það varð mjög hörð samkeppni á þessum markaði. Nú horfir fólk meira í aurinn og það er eðlilegt að fólk leiti frekar í lágvöruverslanir. Við áttum minna erindi til viðskiptavina með þessar vörur og fundum fyrir minnkandi sölu. Fólk er ekki mikið að kaupa morgunkorn á bensínstöð. Þess vegna var ákveðið að leggja áherslu á gæðakaffi og meðlæti með því. Það er ekkert sem segir að við getum ekki selt pylsu eða panini jafn ódýrt og hver annar. En við getum aldrei selt cheerios pakkann á sama verði og í Bónus. Nýjasta uppfærslan gengur sæmilega og það hefur orðið verulegur viðsnúningur í rekstri verslananna. Frekari þróun verður því í takt við það sem við sjáum í dag.“

Aðspurður segir Einar Örn það færast í aukana að fólk kaupi sér kaffi á bensínstöðvum eins og almenningur gerir erlendis. Stöðvarnar hafi á undanförnum árum selt mikið af kaffi en það sem hafi þó breyst sé að kaffið sé orðið betra og tegundirnar fleiri.

„Þetta er orðið úrvalskaffi þótt ég segi sjálfur frá,“ segir Einar Örn og glottir. „Við höfum kannski verið aðeins á eftir öðrum þjóðum í þessu, uppáhellta kaffið var allsráðandi en það víkur nú óðum fyrir úrvalskaffi eins og við erum með núna.“

Nánar er rætt við Einar Örn í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.