Búast má við því að fjármálaráðuneytið svari fljótlega erindi Skipta hf., móðurfélags Símans, um að fresta skráningu félagsins í OMX kauphöllina á Íslandi og þar með sölu á um það bil þrjátíu prósenta hlut þess til almennings.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, segir aðspurður að ákvörðun stjórnar Skipta um að fara fram á frestun tengist á engan hátt aðstæðum á markaði. Hann segir að rekja megi ástæðuna til þátttöku Skipta í söluferli slóvenska símans Telekom Slovenije. Skipti lögðu inn tilboð í rúmlega 49% hlut símans, hinn 15. október, og kemur ekki í ljós fyrr en í árslok hvort af kaupunum verði. Skipti er í hópi sjö aðila sem keppa um hlutinn.

Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX kauphallar á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að það sé í þágu fjárfesta á markaði að fresta sölu Skipta. Fjárfestar fái með öðrum orðum ekki skýra mynd af fyrirtækinu fyrr en það liggi fyrir hvort Skipti kaupi í slóvenska símanum eða ekki.

Markaðsvirði slóvenska símans er um 250 milljarðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag.