Kazuo Hirai, sem tók við forstjórastólnum hjá japanska hátæknirisanum Sony um mánaðamótinn, líkar að sögn illa við taprekstur fyrirtækisins. Hann er byrjaður að brýna niðurskurðarhnífinn sem mun losa fyrirtækið við óarðbærar einingar. Í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times segir að 10.000 starfsmönnum verði sagt upp fljótlega en það jafngildir 6% af öllum starfsmönnum Sony. Þá verða tvær rekstrareiningar seldar og sjónvarpstækjaframleiðslan, sem hefur reynst langtum minni en stefnt var að, stokkuð upp.

Sony hefur þegar selt eitt dótturfyrirtæki sitt og ætlar auk að vinna með Hitachi og Toshiba að framleiðslu á litlum flatskjám. Fyrirtækin setja saman fyrirtæki á laggirnar sem mun sjá um framleiðsluna og fer eitthvað af því fólki sem hverfur af launaskrá hjá Sony a starfsmannaskrá hjá þessu nýja firma.

Rekstur Sony hefur skilað botnlausu tapi síðastliðin fjögur ár og er búist við að síðasta ár hafi ekki verið betra. Rekstrarár Sony lýkur í enda mars og hefur uppgjörið ekki verið birt. Búist er við að tapið í fyrra hafi numið 220 milljörðum jena, í kringum 340 milljörðum íslenskra króna.

Kazuo Hirai
Kazuo Hirai
Kazuo Hirai, forstjóri Sony, er kannski ánægður með leikjatölvuna PlayStation 3 og spjaldtölvur undir merkjum Sony. En það er allt og sumt. Sala á nýjum sjónvörpum er langt undir væntingum og virðist nær meiri líkur á að fyrirtækið skili tapi á hverju ári en að vinna þrjá rétta í Víkingalottóinu.