Eins og greint er frá í Viðskiptablaðinu í dag eru sorpmál á Suðurlandi í nokkru uppnámi vegna fyrirhugaðrar lokunar á sorpurðunarstað í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi. Allt stefnir í dýra sorpflutninga yfir Hellisheiði með losun í Álfsnesi. Steinþór Skúlason forstjóri SS segir að lokun sorpurðunarstaðar í Kirkjuferjuhjáleigu muni leiða til mikils aukakostnaðar fyrir félagið.

Megnið af lífrænum úrgangi sem til fellur vegna slátrunar og kjötvinnslu SS á Suðurlandi fer þó í kjötmjölsverksmiðju sem fyrirtækið á og rekur með öðrum skammt austan við Selfoss. Annar úrgangur og rusl hefur verið urðað í Kirkjuferjuhjáleigu.

„Við höfum metið það svo hjá okkur að lokun urðunarstaðarins muni leiða til á milli 10 og 20 milljóna króna kostnaðarauka á ári. Þarna er frábær urðunarstaður með öll tilskilin leyfi til langs tíma en það eru einhver fáránlegar millisveitakrítur í gangi milli Ölfuss og Árborgar sem setur þetta í uppnám. Ýmis furðuleg þrætumál virðast svo blandast inn í þetta. Ég held að íbúar hafi þó ekki gert sér grein fyrir því hvað þetta muni kosta ef urðunarstaðnum verður lokað. Mér finnst grátlegt eins og staðan er í þjóðfélaginu að þarna sé verið að henda hundruðum milljóna út um gluggann."

Enginn annar urðunarstaður

Byggðasamlagið Sorpstöð Suðurlands hefur ekki lengur yfir að ráða neinum urðunarstað eftir lokun í Kirkjuferjuhjáleigu. Sorpstöðin er í eigu 13 sveitarfélaga í Árnes- og Rangárvallasýslum og var stofnað 1981en urðun í Kirkjuferjuhjáleigu hófst 1995. Í starfsleyfi stöðvarinnar frá 2002 sé gert ráð fyrir urðun úrgangsefna, allt að 30.000 tonnum á ári. Samkvæmt auglýstu starfsleyfi er gildistími þess til ársins 2025.

Guðmundur Tryggvi Ólafsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að urðunarstaðnum á Kirkjuferjuhjáleigu verði lokað 1. desember 2009 í samræmi við samning Sveitarfélagsins Ölfus og Sorpstöðvar Suðurlands frá árinu 2004.

„Eins og staðan er í dag hafa ekki aðrir urðunarstaðir í Árnes- og Rangárvallasýslu starfsleyfi til móttöku á öllu því magni sem falla mun til eftir að Kirkjuferjuhjáleiga lokar."

Tryggvi segir að í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020 sé ítarlega rakið hvernig sveitarfélögin á suðvestur hluta landsins ætla að standa að meðhöndlun úrgangs. Ráðgert sé að fara í svipaða vinnslu á lífrænum efnum í framtíðinni og gert er í jarðgerðarstöð Moltu ehf. að Þveráreyrum í Eyjafjarðarsveit, nema hvað bætt á inn forvinnslu þar sem gas verður unnið úr efninu áður en það er jarðgert. Segir hann að einnig hafi möguleikinn á að setja upp sorpbrennslustöð verið skoðaður. Slíkar brennslustöðvar séu hins vegar mjög dýrar í byggingu og rekstri.

Ruslinu ekið í Álfsnes

Ef ekki verður framlenging á urðun á Kirkjuferjuhjáleigu, þarf að aka sorpi af Suðurlandi í söfnunarbílunum yfir Hellisheiði í Álfsnes til urðunar. Gerður hefur verið samningur við SORPU um móttöku á sorpi frá svæðinu meðan undirbúningur við nýjan urðunarstað og nýjar lausnir fara fram. Kostnaðaraukinn sem fellur á íbúa og fyrirtæki á Suðurlandi vegna lokunar í Kirkjuferjuhjáleigu er áætlaður um 200 til 300 milljónir króna á ári.