*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Erlent 16. febrúar 2021 16:01

Forstjóri stærstu hótelkeðjunnar látinn

Arne Sorenson, forstjóri Marriott, er látinn en hann greindist með krabbamein fyrir tæpum tveimur árum síðan.

Ritstjórn
Arne M. Sorenson tók við forstjórastöðunni hjá Marriott árið 2012.
EPA

Arne M. Sorenson, sem gegnt hafði forstjórastöðunni hjá Mariott-hótelkeðjunni frá árinu 2012, lést í gær 62 ára að aldri. Fyrir tæpum tveimur árum var sagt frá því að Sorenson hefði greinst með krabbamein í brisi og varð það hans banamein.

Sorenson var farsæll forstjóri. Gerði hann Marriott að stærstu hótelkeðju veraldar en því marki var náð með yfirtöku á Starwood Hotels & Resorts Worldwide Inc. árið 2016. Hafði Marriott þar betur í samkeppni við Hyatt hótelkeðjuna og kínverska fyrirtækið Anbang.

Sorenson fæddist í Tókýó í Japan en flutti sjö ára gamall til Bandaríkjanna. Hann var menntaður lögfræðingur og var einn eigenda Latham & Watkins lögmannsstofunnar í Washington-borg. Mariott-hótelkeðjan var á meðal viðskiptavina lögmannsstofunnar og leist Bill Marriott, stjórnarformanni Marriott, svo vel á Sorenson að hann bauð honum starf árið 1996. Hægt en örugglega fetaði Sorenson sig upp metorðastigann og varð forstjóri Marriott árið 2012, eins og áður sagði. Sorenson var fyrsti forstjóri hótelkeðjunnar, sem ekki kom úr Marriott-fjölskyldunni. 

Marriott hótelkeðjan á rætur að rekja allt aftur til ársins 1927 þegar John Willard Marriott opnaði lítinn sölubás, þar sem gestum og gangandi var selt rótaröl (e. Root Beer). Fljótlega opnaði Marriott-fjölskyldan nokkra veitingastaði og fyrsta hótelið opnaði í Arlington í Virginíu árið 1957.

Í dag er Marriott hótelkeðjan með 30 vörumerki á sínum snærum og starfsemi á um 8.500 stöðum í 130 löndum. Á meðal vörumerkja keðjunnar eru  Ritz-Carlton, Courtyard, W Hotels, Westin og Sheraton.

Stikkorð: Marriott Arne Sorenson