Steypustöðin ehf hefur sagt upp sautján fastráðnum starfsmönnum, frá og með mánaðamótum. Þessu til viðbótar minnkar starfshlutfall hjá þremur starfsmönnum. Þessar uppsagnir hafa verið tilkynntar til Vinnumálaskrifstofu enda flokkast þær sem fjöldauppsagnir.  Samdráttur hjá félaginu hefur verið gríðarlegur og hefur steypusala dregist saman um 70 – 80% milli ára segir í frétt félagsins.

Í frétt Steypustöðvarinnar kemur fram að ekki er útlit fyrir að steypusala aukist á næstu mánuðum. Byggingaiðnaðurinn er  í mikilli lægð og batamerki eru ekki sjáanleg.

,,Þær auknu framkvæmdir sem stjórnvöld lofuðu hafa ekki skilað sér. Dæmi eru um að framkvæmdir sem átti að ráðast í, hafi verið slegnar af. Við þetta ástand neyðist  Steypustöðin  til enn frekari niðurskurðar á kostnaði. Eftir þessar uppsagnir verða starfsmenn félagsins 51 í 42,8 stöðugildum en voru þegar mest var 112 talsins. Margir starfsmenn hafa tekið á sig skerðingu og vinna nú 80% starf. Þetta er gert til að sem flestir geti haldið vinnunni," segir í tilkynningunni.

„Þetta er afar sorglegur dagur og áfall fyrir fyrirtækið. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að geta haldið sem flestum starfsmönnum. Steypa hreinlega selst ekki í dag. Samdrátturinn er allt að 80%. Framkvæmdir eru nánast engar og byggingariðnaðurinn er við það að þurrkast út. Við bíðum enn eftir stjórnvöldum, en lofað var innspýtingu fjármagns til að koma af stað mannaflsfrekum verkefnum. Þau áform hafa ekki orðið að veruleika," segir Hannes Sigurgeirsson forstjóri.