„Blaðið lifði ekki af og það er miður. Við viljum ekki taka þátt í þeim sirkus sem hefur þróast í kjölfarið. Þess vegna vil ég ekki tjá mig frekar um málið,“ var haft eftir Þórdísi Sigurðardóttur, forstjóra Stoða Invest, í samtali við Berlingske Tidende í gær.

Morten Lund, aðaleigandi Nyhedsavisen, viðurkenndi um helgina að hafa falið lögfræðingum sínum að gera samningsdrög þess efnis að hann fengi 139 milljónir danskra króna frá evrópska dagblaðaútgáfufélaginu Mecom fyrir að leggja niður blaðið.

Hann vísaði því hins vegar á bug að samningurinn hefði náð fram að ganga. Einungis hefði verið um drög að ræða.

Danskir fjölmiðlar hafa síðustu daga velt fyrir sér endalokum Nyhedsavisen og fyrir helgi greindi Jótlandspósturinn frá fyrrgreindum samningsdrögum. Lund sagði við danska blaðamenn um helgina að tilgangurinn með þeim hefði verið að fá peninga til þess, meðal annars, að geta greitt lánardrottnum blaðsins.

Þannig, sagði hann, hefði mátt koma í veg fyrir að blaðið yrði gjaldþrota þegar útgáfunni var hætt.

Ekki er ljóst hvað forsvarsmenn Stoða Invest, sem áttu 15% í Nyhedsavisen, höfðu mikla vitneskju um samningsdrögin. Þórdís Sigurðardóttir svaraði ekki símtölum Viðskiptablaðsins í gær.

Danskir fjölmiðlar segja hins vegar að Þórdís hafi á símafundi með Lund hinn 31. ágúst sl. sakað hann um að fara á bak við íslensku eigendurna með því að gera samning um lokun Nyhedsavisen.

Heimildarmenn danskra fjölmiðla segja að Þórdís hafi á sama símafundi orðið mjög reið þegar hún hafi verið upplýst um þá ákvörðun að hætta útgáfu blaðsins. Hún hefði boðist til þess að leggja strax fram sjö milljónir danskra króna svo að blaðið mætti koma út á mánudagsmorgni.

Allt kom fyrir ekki, eins og kunnugt er, og var tilkynnt formlega um endalok dansk/íslenska fríblaðsins Nyhedsavisen hinn 1. september sl.