Yfirtökutilboð Candover í Stork hefur verið framlengt til klukkan 15:00 þann 18 september, en lokafrestur hluthafa til að samþykkja eða synja tilboðinu átti að renna út í gær. Í tilkynningu frá Stork er líka tekið fram að LME eignarhaldsfélag ehf. sem eigi nú 43% hlut í Stork hafi tilkynnt að það muni ekki selja þann hlut á grundvelli tilboðs Candover. Heimildir segja að forstjóri Stork hafi komið til Reykjavíkur um helgina til viðræðna við LME.

Þá er greint frá því í tilkynnigu Stork að viðræður hafi átt sér stað á milli LME og London Acquisition B.V. Báðir aðilar hafi trú á að rétt sé að halda viðræðum áfram. Engin trygging er þó gefin fyrir því að þær viðræður muni leiða til lausnar sem allir geti sætt sig við.

Sjoert Vollenbregt forstjóri Stork mun samkvæmt heimildum De Financiele Telegraaf hafa verið í Reykjavík um helgina í viðræðum við Marel. Þar er talið að báir aðilar séu nú bjartsýnir á að samkomulag náist um framtíð Stork á næstu tveim vikum.


Sem fyrr segir rennur framlenging á tilboði Candover út þann 18. September. Tilkynna á um niðurstöðu málsins í síðasta lagi 25. september. Þar verður í fyrsta lagi upplýst hvort tilboði hljóti samþykki tilskilins meirihluta. Í öðru lagi hvort einhver vafi er með uppfyllingu á skilyrðum tilboðsins, eða í þriðja lagi hvort tilboðið er fellt.


Þó framlenging hafi verið tilkynnt þá hafa hluthafar sem hafa lýst sig reiðubúna til að selja sína hluti samkvæmt skilmálum Candover fyrir 4. september, rétt á að draga þau tilboð sín til baka samkvæmt ákvæðum laga. Er það byggt á að upphaflegi tilboðsfrestur sé útrunninn. Geri þeir það hins vegar ekki gildir fyrra samþykki.