William Fall, forstjóri Straums, sagði í viðtali á CNBC í gær að áherslur Straums yrði ennþá varfærnar. Tilsvör Fall í viðtalinu voru að mestu í takt við það sem hann sagði á afkomufundi bankans í gær. Fall sagði að áhættustýring bankans snerist ekki um að draga úr áhættu yfir höfuð. Frekar yrði að huga að því að taka áhættusamar stöður í eignum sem eru seljanlegar. „Breytingin á Straumi úr fjárfestingasjóði í fjárfestingabanka er einnig í takt við þessa stefnu okkar."

Aðspurður um fjármögnunarkostnað bankans segir Fall Straum standa vel: „Skuldatryggingaálag á íslensku bankanna hefur hækkað mikið á undanförnum mánuðum en er nú loks að fara niður aftur. Þær hreyfingar sem urðu á þeim markaði voru ekki alfarið byggðar á stöðu íslensku bankanna heldur voru aðrir kraftar sem höfðu áhrif þar."

Fréttamaður CNBC spurði Fall jafnframt hvaða áhrif framvindan í íslensku efnahagslífi myndi hafa á starfsemina. „Við erum með landfræðilega vel dreifða starfsemi, líkt og önnur íslensk fjármálafyrirtæki. Aðeins fjórðungur okkar starfsemi er á Íslandi. Þess vegna verðum við fyrir minni áhrifum en við hefðum orðið fyrir til dæmis tveimur árum," sagði Fall.

„Fjárfestar eru ekki að meta íslensku fjármálafyrirtækin rétt, þetta eru vel uppbyggð fyrirtæki með góða fjármögnun. Ég hef raunar ekki áhyggjur af stöðu bankanna, frekar hvernig fólk heldur að bankarnir standi," sagði hann.

Viðtalið má sjá hér .