Betra er að skilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabönkum. Fjárfestingabankastarfsemi er áhættusamari en innlánarekstur og getur verið orsök þess að bankar þurfi á ríkisaðstoð að halda, að mati Péturs Einarssonar, forstjóra Straums Fjárfestingarbanka.

Pétur bendir á það í grein sinni sem birtist í Fréttablaðinu í dag, að standi hefðbundnir viðskiptabankar líka í fjárfestingabankastarfsemi þá séu þeir líklegir til að vera með stærri efnahagsreikning og dýrara verði að koma þeim til bjargar. Pétur segir þessa hættu sérstaklega til staðar hér á landi vegna smæðar fjármálamarkaðarins.

„Lendi viðskiptabanki í vandræðum kemur það niður á trausti á mörkuðum og leiðir yfirleitt til almennra verðlækkana á eignamörkuðum. Sú þróun getur haft þær afleiðingar að fjárfestingabankastarfsemi viðkomandi banka verði til skamms tíma ekki sjálfbær og auki þannig á vandræði hans. Því til viðbótar setur hún starfsemi annarra fjárfestingabanka í uppnám,“ skrifar Pétur.