„Þegar ég var hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins um síðustu aldamót vorum við að stíga fyrstu skrefin í áttina að því að verða alþjóðlegur sjávarútvegsbanki og unnum með nokkrum stærstu útgerðar- og fiskeldisfyrirtækjum í heiminum,“ segir Pétur Einarsson, forstjóri Straums, spurður um eftirminnilegustu ferð sína í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Eitt verkefni sem ég var að vinna í tengdist fjandsamlegri yfirtöku á Fisheries Products International, sem var stórt skráð fyrirtæki í Kanada. Einn af þeim sem vildi kaupa fyrirtækið var frá Nýja Sjálandi. Ég þurfti að hitta þennan mann og flaug því til Auckland á Nýja Sjálandi, sem er töluvert ferðalag. Frá Íslandi er þetta líklega um 30 tíma flug.“

Þegar Pétur lenti á flugvellinum í Auckland var hann því eðlilega orðinn svolítið ryðgaður.

„Tollvörðurinn spurði mig hvað ég væri að gera til Nýja Sjálands og ég sagðist vera frá íslenskum banka tengdum sjávarútvegi. Þetta þótti honum ekki nægar upplýsingar og vildi vita meira. Ég reyndi að segja honum að verkefnið væri á viðkvæmu stigi og ég gæti því miður ekki sagt honum meira. Hann brást ókvæða við og vildi þá fá lista yfir þá menn sem ég væri að hitta á Nýja Sjálandi. Þetta var frekar neyðarlegt upphaf á þessu ævintýri okkar í bankanum.“

Nánar er fjallað um ferðalag Péturs og önnur ferðalög í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.