Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst á dögunum kæra frá lögmanni Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, á hendur Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Ísland og Arnóri Sighvatssyni aðstoðarseðlabankastjóra. Er þeim gefið að sök að hafa borið Þorstein röngum sökum í kæruskjali sem sent var til sérstaks saksóknara þann 9. september 2013 í kjölfarið rannsóknar á ætluðum brotum Samherja, tengdra félaga og tiltekinna einstaklinga á lögum og reglum um gjaldeyrismál.

Seðlabankinn leyndi upplýsingum

Í kærunni er því haldið fram að Ingibjörg og Arnór hafi með rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullnægjandi upplýsingum leitast við að koma því til leiðar að Þorsteinn Már yrði sakaður um eða dæmdur fyrir brot gegn hegningarlögum þegar þau undirrituðu og sendu fyrir hönd bankans fyrrnefnt kæruskjal til sérstaks saksóknara. Í kærunni til sérstaks saksóknara kom fram að Þorsteinn hefði á árunum 2008 til 2012, sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi Samherja, vanrækt að standa skil á erlendum gjaldeyri sem félagið hefði eignast. Þá segir lögmaður Þorsteins að í rannsóknarskýrslu Seðlabankans frá 9. september 2013 hafi ítrekað verið staðhæft ranglega að Seðlabankinn hefði ekki yfirlit yfir bankareikninga Samherja í Arion banka. Bankinn hafi hins vegar haft þessi yfirlit sem hafi sýnt, svo ekki varð villst um að, Samherji hafi aldrei verið í neinum vanskilum með erlendan gjaldeyri til Íslands. Kemur fram að ekki ekki verði annað séð en Seðlabankinn hafi viljandi látið undir höfuð leggjast að sjá til þess að við framsetningu rannsóknarniðurstaðna að tekið væri tillit til gjaldeyris sem rann beint inn á gjaldeyrisreikning Samherja í Arion banka. Seðlabankinn hafi ítrekað beitt fyrir sig ósannindum og leynt upplýsingum varð- andi þessa reikninga.

Löng fangelsisvist gæti legið við meintum brotum

Í kærunni sem rituð er af Garðari G. Gíslasyni hrl. eru leiddar líkur að því að Ingibjörg og Arnór hafi með háttsemi sinni leitast við að koma til leiðar að Þorsteinn yrði fangelsaður allt að tveimur árum og hafi þau þannig brotið gegn 1. mgr. 148 gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í því segir að hver sá sem leitist við að koma því til leiðar að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, skuli sæta fangelsi allt að 10 árum. Þá er í kærunni einnig bent á að í sama ákvæði komi fram að ef brotið hafi haft í för með sér velferðarmissi fyrir nokkurn mann, þá skuli refsað með fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 16 árum. Þar að auki er vísað til refsiaukaákvæðis 138 gr. hegningarlaga sem felur í sér að ef um sé að ræða opinbera starfsmenn sem hafi gerst sekir um að misnota stöðu sína megi þyngja refsinguna enn frekar.

Einnig nauðsynlegt að rannsaka þátt Más Guðmundssonar

Í niðurlagi kærunnar sem lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst frá lögmanni Þorsteins Más, er einnig bent á nauðsyn þess að rannsaka þátt annarra starfsmanna Seðlabankans vegna stjórnskipulegrar stöðu þeirra innan bankans. Er þar sérstaklega vísað til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings Seðlabankans.

Enginn fótur fyrir ásökununum

Þegar leitað var viðbragða hjá Arnóri og Ingibjörgu við kærunni og frétt Morgunblaðsins hvað hana varðaði bárust eftirfarandi svör frá Seðlabankanum: „Vegna fyrirspurnar ykkar í framhaldi af frétt Morgunblaðsins um kæru Samherja er rétt að fram komi að Seðlabanki Íslands hefur það lögbundna hlutverk að hafa eftirlit með og framfylgja lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og ber bankanum skylda samkvæmt lögunum að vísa ætluðum meiri háttar brotum gegn þeim, og reglum settum á grundvelli þeirra, til lögreglu. Þegar ætluðum meiri háttar brotum er vísað til lögreglu er Seðlabanki Íslands að framfylgja þeirri lagaskyldu sinni og starfsmenn starfsskyldum sínum. Enginn fótur er fyrir þeim ásökunum sem fram koma í frétt Morgunblaðsins.“