Forstjóri Tesco, sem er stærsta verslunarkeðja Bretlands, þrýsti á stjórnendur Englandsbanka um að bankinn lækkaði stýrivexti sýna.

Breska blaðið Guardian segir á heimasíðu sinni að Sir Terry Leahy, forstjóri Tesco, hafi rætt við Mervyn King, seðlabankastjóra Englands, á sérstökum einkafundi og að þær viðræður hafi skilað þeirri lækkun stýrivaxta sem Englandsbanki tilkynnti um nú í vikunni en vextir voru lækkaðir um 1,5 prósent.

Sir Leahy segir að nauðsynlegt hafi verið að lækka vexti m.a. til þess að koma til móts við lántökukostnað. Mikilvægt sé að styrkja stoðir fyrirtækja í landinu svo hægt verði að endurvekja traust neytenda.

Sir Leahy er sagður hafa fundað með fleiri háttsettum embættismönnum Breta varðandi peningastefnu landsins.

Yfirburðir Tesco á matvælamarkaði eru miklir í Bretlandi og er markaðshlutdeild fyrirtækisins um 30 af hundraði.