Hisao Tanaka, forstjóri raftækjaframleiðandans Toshiba, hefur sagt upp störfum í kjölfar þess að í ljós kom að fyrirtækið hefði ýkt hagnað sinn um samtals 1,2 milljarða dali á nokkurra ára tímabili. BBC News greinir frá þessu.

Greint var frá því í gær að fyrirtækið hefði ýkt hagnaðartölurnar , en það kom í ljós eftir óháða rannsókn sem fram fór að beiðni fyrirtækisins.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kom fram að innan Toshiba hafi verið fyrirtækjamenning sem gerði það að verkum að starfsmenn gætu ekki unnið gegn skipunum yfirmanna sinna. Því hafi það farið svo að þegar æðstu stjórnendur komu með áskoranir fyrir starfsmenn hafi þeir síðarnefndu beitt ófullkomnum bókhaldsaðferðum til að ná þeim.

Ýktu hagnaðartölurnar voru þrefalt hærri en Toshiba gerði ráð fyrir þegar rannsóknininni var hrint af stað.

Masashi Muromachi, stjórnarformaður Toshiba, mun taka við sem forstjóri fyrirtækisins.