Travis Kalanick, forstjóri og stofnandi skutlþjónustunnar Uber, hefur ákveðið að segja upp störfum. Hann mun þó áfram sitja sem fastast í stjórn fyrirtækisins. Hluthafar í Uber beittu forstjórann miklum þrýstingi, og kölluðu eftir afsögn hans. Nýverið tók Kalanick sér ótímabundið leyfi frá störfum vegna persónulegs áfalls, en móðir hans lést af slysförum. Einnig hafði fyrirtækið þurft að glíma við hin ýmsu hneykslismál, en upp komu til að mynda ásakanir um kynferðislegt áreitni innan fyrirtækisins.

Enn fremur var Kalanick staðinn að því að rífast við starfsmann Uber vegna launa. Í kjölfarið baðst hann afsökunar, en forstjórinn sagði meðal annars við starfsmann sinn: „Sumir einstaklingar vilja ekki taka ábyrgð á eigin skít.“ Eins og Viðskiptablaðið greindi nýverið frá hefur markaðshlutdeild Uber dregist saman og sækir skutlþjónustan Lyft óðfluga á risann Uber, þrátt fyrir að Uber sé enn þá langsamlega stærsta fyrirtækið á skutlmarkaðnum á heimsvísu.

Róstusamir tímar

Uber tapaði 2,8 milljörðum dollara í fyrra, eða því sem nemur 312,5 milljörðum íslenskra króna en mikil tekjuaukning var hjá fyrirtækinu á árinu. Framlegð Uber nam 6,5 milljörðum dollara á síðasta ári. Emil Michel sem var næstráðandi hjá fyrirtækinu var sagt upp störfum í kjölfar birtingar skýrslu sem Eric Holder, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna var nn fyrir Uber, en hann kallaði eftir því að breytingar yrðu gerðar hjá fyrirtækinu.