Oscar Munoz, forstjóri United, segir í viðtali við ABC að flugfélagið muni aldrei aftur láta lögreglumenn draga fólk úr flugvélum sínum. Fyrir þremur dögum var farþegi með flugfélaginu dreginn úr sæti sínu í Chicago þegar hann neitaði að víkja úr sæti sínu.

Maðurinn varð að víkja vegna þess að það þurfti rými fyrir starfsfólk United, sem var á leið til Louisville, Kentucy, með flugvélinni. Forstjórinn baðst jafnframt afsökunar og sagði atburðinn „hræðilegan“ og tók fram að flugfélagið myndi skoða verklag sitt. Hann segist jafnframt skammast sín vegna atviksins.

Munoz tók fram í viðtalinu að hann hygðist ekki segja af sér og biðst afsökunar á því hvernig flugfélagið tók á málinu í fyrstu. Forstjórinn tók við United árið 2015 og fékk 5,8 milljónir dollara í laun það ár.