*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 3. maí 2013 14:10

Forstjóri VÍS fékk sérmeðferð í útboðinu

Sigrún Ragna Ólafsdóttir gerði ekki 800 milljóna kauptilboð í hlutafjárútboði VÍS.

Hallgrímur Oddsson

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, varð ekki fyrir sömu skerðingu og aðrir fjárfestar í almennu útboði á 70% hlutafjár í VÍS sem fram fór í apríl. Samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi Scheving Thorsteinsson, forstjóra Klakka, var ákveðið að kauptilboð Sigrúnar Rögnu sætti ekki sömu skerðingu og önnur tilboð sem bárust í Tilboðsbók B í útboðinu. Í þeim hluta voru fjárfestar sem gerðu tilboð hærra en 50 milljónir króna. Samkvæmt útboðslýsingu var Klakka frjálst að ákvarða skerðingu áskrifta í þeim hluta einhliða. Sigrún Ragna eignaðist hlutabréf fyrir 40 milljónir króna í útboðinu, eða ríflega 5 milljónir hluta. Tilboð hennar hljóðaði ekki upp á 800 milljónir, eins og Viðskiptablaðið hafði áður greint frá.

Vegna mikillar eftirspurnar í útboðinu fengu fjárfestar aðeins brot af kauptilboðum sínum samþykkt. Í tilkynningu um niðurstöður útboðsins sagði að hverjum aðila í B-hluta hafi verið úthlutað sem næmi 5% af gildri áskrift. Ekki var greint frá því að í örfáum tilvikum hafi Klakki nýtt heimild sem leyfði þeim að ákveða hversu mikið hver fjárfestir fengi. Magnús segir að litið hafi verið á það sem merki um traustleika að forstjórinn tæki þátt í útboðinu með afgerandi hætti. Það hafi aðeins verið í örfáum tilvikum sem brugðið var út frá reglu um að hver aðili fengi 5% af gerðum tilboðum.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta tölublaði að Sigrún Ragna hafi boðið 800 milljónir í hlutafjárútboðinu sem fram fór daga 14. til 16. apríl. Það mátti sjá af flöggun vegna viðskipta hennar í Kauphöll upp á 40 milljónir auk þess sem sagði í tilkynningu um niðurstöður að skerðing hafi numið 95 prósentum. Þegar Viðskiptablaðið leitaði viðbragða Sigrúnar Rögnu og spurði hana um fjárfestinguna sagði hún að það væri óhætt að segja að „ég hafi ekki haft hug á að eiga 800 milljónir [í VÍS] en hafi haft hug á að eiga 40 milljónir“.

Útboð á 70% hlut Klakka, áður Exista, í VÍS skiptist í þrjá hluta. Í A-hluta voru áskriftartilboð undir 50 milljónum króna. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að hver fengi að hámarki hlutabréf fyrir 1,5 milljónir á útboðsgenginu 7,95% í þeim hluta útboðsins. Í B-hluta voru tilboð yfir 50 milljónum króna. Þar fengu fjárfestar 5% af gerðum tilboðum nema í nokkrum tilvikum, eins og fyrr greinir, þar á meðal í tilviki Sigrúnar Rögnu. Í C-hlutanum voru fjárfestar sem hugðust eignast stærri hluti í gegnum tilboðsbók. Klakki hafði heimild til þess að taka einhliða ákvarðanir um útdeilingu hlutabréfa í B og C hlutum útboðsins.

Viðskiptablaðinu er ekki kunnugt um hversu hátt tilboð Sigrúnar Rögnu var í hlutafjárútboðinu en ljóst er að það var yfir 50 milljónum, sem var lágmarksboð í B-hlutanum.