Fullyrðingar um að milljarðatugir af skuldum móðurfélags Vodafone hafi verið afskrifaðar eru rangar. Hið réttar er að fyrrverandi eigendur Teymis misstu félagið í hendur kröfuhafa sem í kjölfarið breyttu hluta af kröfum í hlutafé.

Þetta segir Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu. „Vissulega er það rétt að Teymi var illa statt og skuldir þess voru miklar. Þær voru þó ekki tilkomnar vegna reksturs Vodafone, sem ávallt hefur staðið við sínar skuldbindingar og gerir enn, heldur alls óskyldra fjárfestingarverkefna Teymis,“ Segir Ómar.

Greinina skrifar hann í kjölfar viðtals Viðskiptablaðsins við Sævar Frey Þráinsson, forstjóra Símans þann 11. nóvember sl. Ómar segir að viðtalið við Sævar dæmi um tilvik þar sem samkeppnin birtist í neikvæðu tali eins aðila í garð hinna.

„Þar [í viðtalinu] er forstjórinn m.a. spurður út í 10 milljarða króna tap og minnkandi markaðshlutdeild Símans. Þá þróun skýrir hann með því, að keppinautar Símans hafi fengið skuldir afskrifaðar, önnur fjarskiptafélög séu illa rekin og þau njóti forskots í krafti aðgerða stjórnvalda sem auka eiga samkeppni,“ segir Ómar í greininni og spyr:

„Er t.d. hugsanlegt að ítrekuð brot Símans á samkeppnislögum og ríflega hálfs milljarðs króna sektargreiðslur vegna þeirra skipti máli í þessu sambandi?“

Grein Ómars i heild má lesa hér:

Samkeppnin á fjarskiptamarkaðnum hér á landi hefur verið gríðarlega hörð undanfarin misseri. Hún hefur að mestu leyti verið á faglegum forsendum, þar sem fjarskiptafyrirtækin hafa keppst um að bjóða neytendum sífellt betri þjónustu og aukinn ávinning. Í einstaka tilvikum hefur samkeppnin þó birst í neikvæðu tali eins aðila í garð hinna – niðurrifi og ásökunum sem enginn sómi er af. Viðtal við forstjóra Símans, sem birtist í Viðskiptablaðinu 11. nóvember sl., er dæmi um slíkt. Þar er forstjórinn m.a. spurður út í 10 milljarða króna tap og minnkandi markaðshlutdeild Símans. Þá þróun skýrir hann með því, að keppinautar Símans hafi fengið skuldir afskrifaðar, önnur fjarskiptafélög séu illa rekin og þau njóti forskots í krafti aðgerða stjórnvalda sem auka eiga samkeppni.

Hætta að tala niður til starfsmanna

Þessi söngur hefur heyrst nokkuð reglulega. Það er hins vegar löngu tímabært að hætta að tala niður til starfsmanna og stjórnenda annarra fjarskiptafyrirtækja með þessum hætti. Starfsfólk keppinauta Símans er hæfileikaríkt og duglegt fólk sem sinnir störfum sínum af fullum heilindum. Skýringar á döpru gengi Símans eru því aðrar en forstjórinn hefur haldið fram. Er t.d. hugsanlegt að ítrekuð brot Símans á samkeppnislögum og ríflega hálfs milljarðs króna sektargreiðslur vegna þeirra skipti máli í þessu sambandi? Eða er hugsanlegt að fjárfesting í markaðsstarfi Símans hafi verið óhófleg? Nýjar tölur sýna a.m.k. að 67% af sjónvarps- og blaðaauglýsingum fjarskiptafyrirtækjanna á fyrstu níu mánuðum þessa árs var frá Símanum, á meðan hin fyrirtækin skiptu á milli sín afgangnum.

Fullyrðingar um að milljarðatugir af skuldum móðurfélags Vodafone hafi verið afskrifaðir eru rangar. Hið rétta er, að fyrrverandi eigendur Teymis (móðurfélags Skýrr, HugarAx og Vodafone) misstu félagið í hendar kröfuhafa sem í kjölfarið breyttu hluta af kröfum sínum í hlutafé. Í því fólst ekki skuldaafskrift, heldur var um að ræða aðgerð sem svipar til þess þegar banki leysir til sín fasteign, þegar eigandinn stendur illa. Í því felst eingöngu eðlilegt skuldauppgjör, ekki afskrift. Vissulega er það rétt að Teymi var illa statt og skuldir þess voru miklar. Þær voru þó ekki tilkomnar vegna reksturs Vodafone, sem ávallt hefur staðið við sínar skuldbindingar og gerir enn, heldur alls óskyldra fjárfestingarverkefna Teymis. Raunar má segja að gagnrýni forstjóra Símans komi að nokkru leyti úr hörðustu átt, en móðurfélag Skipta sem á og rekur Símann, er fjárfestingarfélagið Exista. Exista er nú komið í eigu kröfuhafa og rétt eins og hjá Teymi völdu kröfuhafar að létta skuldabyrði móðurfélagsins með því að breyta kröfum sínum í hlutafé. Staða Símans og Vodafone er því sambærileg hvað þetta varðar.

Hugmyndafræði háttvísinnar

Í heimi íþróttanna er mikið lagt upp úr háttvísi (fair play). Að keppinautar beri virðingu hverjir fyrir öðrum og virði skráðar og óskráðar reglur leiksins. Það þykir til að mynda ekki til fyrirmyndar að reyna ítrekað að fiska víti á andstæðinginn. Það er tímabært að hugmyndafræði háttvísinnar verði innleidd í samkeppni fjarskiptafyrirtækjanna og raunar allra fyrirtækja hérlendis. Áhersla verði lögð á að kynna eigið ágæti og keppt verði á faglegum forsendum um hylli neytenda í stað þess að bera út dylgjur og gróusögur um keppinautinn. Starfsfólk og stjórnendur Vodafone munu leggja sig alla fram um að svo geti orðið.