Arun Sarin, forstjóri Vodafone, hefur staðfest að hann muni láta af störfum eftir aðalfund fyrirtækisins í júlílok en um fimm ár eru síðan hann tók við störfum sem æðsti yfirmaður stærsta farsímafyrirtækis í heimi, ef tekið er tillit til tekna.

„Mér fannst að á þessum tímapunkti, þegar fyrirtækið stendur vel, væri hagstætt að afhenda öðrum stjórnartaumana,” hefur Wall Street Journal eftir Sarin.

„Ég hef náð þeim markmiðum sem ég setti mér þegar ég tók við starfinu.”

Eftirmaður hans verður Vittorio Colao, núverandi aðstoðarforstjóri fyrirtækisins og yfirmaður starfsemi þess í Evrópu.

Nýir markaðir í forgrunni

Í stjórnartíð hans hefur fyrirtækið beint sjónum sínum í ríkum mæli til nýrra markaða svo sem á Indlandi, þaðan sem Sarin er uppruninn þó svo að hann hafi bandarískt ríkisfang, Tyrklandi og Rúmeníu.

Undir hans forystu tókst Vodofone m.a. að eignast 67% hlut í indverska farsímafyrirtækinu Hutch fyrir 1,1 milljarð dollara.