Nokkrum vikum eftir að Vodafone kynnti um metafkomu á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, barst tilkynning um að brotist hefði verið inn á vefsíðu félagsins og upplýsingum úr smáskilaboðum sem send voru af síðunni stolið. Tókst félaginu að rekja IP tölu tölvuhakkarans til Istanbúl í Tyrklandi. Skilaboðin innihéldu meðal annars persónuleg skilaboð en atvikið hafði í för með sér margvísleg óþægindi fyrir suma viðskiptavini félagsins. Borist hafa fregnir um að nokkrir einstaklingar hafi leitað réttar síns til lögmannsstofu í Reykjavík er varðar mögulega skaðabótaskyldu Vodafone vegna tilfinninga- og/eða persónulegs tjóns sem af leka gagnanna á internetið hlaust.

Viðskiptavinum bauðst að vista samskiptasöguna

Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, slær ekki af því um háalvarlegt mál hafi verið að ræða. „Það er gjarnan talað um gagnaleka í þessu samhengi, en í raun og veru var um innbrot að ræða þar sem gögnum var stolið,“ segir Ómar. Bendir hann á að atvikið hafi reynt mikið á fyrirtækið enda traust eitt af grunngildum félagsins. „Það reyndi mjög á traustið á þessum tíma. Ég hef verið hjá fyrirtækinu frá árinu 2005 og gengið í gegnum súrt og sætt en það bliknar í samanburði við þennan atburð. Þetta reyndi mikið á okkar starfsfólk og mig sjálfan,“ lýsir Ómar.

„Langstærstur hluti þeirra sem senda skilaboð í gegnum vefsíðuna eru fyrirtæki sem eru að senda ýmis þjónustuskilaboð, minna á tíma í hárgreiðslu- eða tannlæknatíma og þess háttar. Mörg þessara fyrirtækja sóttust eftir því að geta séð samskiptasögu sína til að nýta sér stöðluð skilaboð sem send voru út,“ útskýrir Ómar. Það hafi þó þurft að fjarlægja hakið við þann valmöguleika ef ekki átti að vista gögnin. Viðurkennir Ómar að það kunni að hafa valdið misskilningi um vistun skilaboðanna en fyrirtækið hafi á engan hátt reynt að fela að þau væru vistuð. Þvert á móti hafi eldri skilaboð blasað við notendum þegar þeir fóru inn á sínar læstu þjónustusíður.

Að þessu leyti sé það ekki skýrt hvort lögin um sex mánaða geymslu gagnanna eigi við í þessu tilviki. „Þessi skilaboð lágu þarna á persónulegum síðum notendanna á sama hátt og tölvupóstar margra liggja í póstforritum eða læstum vefsvæðum. Við höfum lagt áherslu á að ræða opinskátt við okkar viðskiptavini um framgang málsins og erum einfaldlega enn að skoða ýmsa þætti þess,“ segir Ómar, „enda ljóst að atvikið hefur verið vitundarvakning fyrir marga hvað varðar netöryggi og aðgengi persónuupplýsinga á netinu.“

Ítarlegt viðtal við Ómar má lesa í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.