Martin Winterkorn, forstjóri Volkswagen sagði af sér fyrir stundu eftir átta klukkustunda stjórnarfundar sem boðað var til fyrr í dag. Afsögn hans kemur eftir mikla gagnrýni í kjölfarið af því að upp komst um hugbúnað sem hannaður var til að sniðganga umhverfiskröfur.

Eftir að upp komst um málið lækkuðu hlutabréf í félaginu strax við opnun markaða á mánudaginn en markaðsvirði félagsins lækkaði um 25 milljarða evra á fyrstu tveimur dögunum.

Orðrómur hefur verið uppi síðustu daga um að forstjórinn verði látinn taka pokann sinn og að líklegur arftaki hans sé Matthias Mueller, forstjóri Porsche.

Hlutabréf Volkswagen hafa hækkað um 5,05% í dag eftir miklar lækkanir síðustu daga.