Martin Winterkorn, forstjóri  Volkswagen í Þýskalandi, spáir því að heimsbyggðin muni ekki ná sér aftur að fullu úr kreppunni fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2013. Kom þetta fram á ráðstefnu bílaframleiðenda í Nuertingen í Þýskalandi í gær.

Greint er frá því á vefsíðu World News að forstjóri þessa stærsta bílaframleiðanda Evrópu segi að sala í bílum muni líklega dragast saman um 49 milljónir bíla á þessu ári. Er það 17% minni bílasala en þegar hún var í hámarki áður en kreppan skall á. Hann segir að ekki sé öruggt á markaðurinn fari að rétta sig af á næsta ári.

„Það er ljóst að árið 2010 verður mjög erfitt,” sagði Winterkorn. “Það eru þó vaxandi teikn á lofti um að versti hluti kreppunnar sé nú að baki. Það mun þó taka tíma fyrir markaðinn að jafna sig.”

Forstjóri Volkswagen horfir nú einkum til Kína sem vænlegs markaðar hvað varðar söluaukningu á komandi árum. Langtímahorfur bendi til að heimsmarkaðurinn muni komast í 70 milljónir bíla og að þýski markaðurinn muni ná jafnvægi í 3,3 milljónum bíla. Hann tiltekur þó ekki hvenær þetta muni gerast, en heildarsala á bílum á heimsvísu að trukkum meðtöldum var 59,2 milljónir ökutækja 2007.