Forstjóri hinnar Whole Foods, sem sérhæfir sig í lífrænum matvælum, er byrjaður að blogga aftur eftir 11 mánuða hlé.

John Mackey setti inn meira en 1400 nafnlausar færslur sem fjölluðu um málefni tengd lífrænum matvælum. Mackey sætti rannsókn bandaríska verðbréfaeftirlitsins eftir að upp komst að færslurnar voru skrifaðar að honum. Stjórn Whole Foods lét einnig rannsaka málið fyrir sig.

Telegraph segir frá þessu í dag.

Í lok síðasta áratugs hóf Mackey að blogga undir dulnefninu Radoheb, sem er endurröðun á stöfunum í nafni eiginkonu hans, Deborah. Meðal þess sem Mackey birti á netinu voru hugleiðingar um að Whole Foods myndi aldrei vilja koma nálægt yfirtöku á keppinauti sínum, Wild Oats. Stuttu síðar gerði Whole Foods yfirtökutilboð í félagið.

Mackey telur nafnleysið ekki hafa verið vandamál. Mikilvægast sé að líta til gæða þeirra orða sem eru skrifuð á netið, fremur en hver skrifar þau. Hann segist ekki munu biðjast afsökunar á framferði sínu, þar sem sköpunargleði hans sé afleiðing mikils drifkrafts.

Blogg Mackey, sem nú er vistað á vefsvæði Whole Foods, má lesa hér .